Verklagsreglur Orlofssjóðs SLFÍ

Almennt

Um rétt félagsmanna gilda reglur Orlofsheimilasjóðs Sjúkraliðafélags Íslands ásamt gildandi reglum vegna leigu á orlofskostum. Sjóðsaðild byggir á að vinnuveitandi greiði til sjóðsins mánaðarlegt framlag í samræmi við ákvæði kjarasamninga hverju sinni. Mánaðarleg ávinnsla orlofspunkta er 1 punktur fyrir hvern mánuð sem greitt er í félagið eða 12 punktar á ári ef greitt er allt árið. Punktastaða sjóðfélaga er uppfærð einu sinni á ári áður en sumarúthlutun fer fram, eða í mars/apríl á hverju ári.

Fagfélagsaðild og lífeyrisdeild

Félagsmenn í lífeyrisdeild eiga áfram rétt líkt og virkir félagsmenn, en ávinna sér ekki frekari orlofspunkta. Punktastaða helst því óbreytt þegar virkur félagsmaður færist yfir í lífeyrisdeild og hefur því rétt til að sækja um orlofshús á meðan viðkomandi er í lífeyrisdeildinni. Fagfélagar eru sjúkraliðar sem starfs síns vegna er skylt að eiga aðild að öðru stéttarfélagi, og greiða árlegt félagsgjald, 10.000 kr. Fagfélagar hafa ekki heimild til að leigja orlofshús eða nýta aðra orlofskosti félagsins.

Orlofsvefur

Ávallt má nálgast upplýsingar um leigutímabil og leigugjald orlofshúsa á orlofsvefnum á https://orlof.is/slfi/  

Leigutímabil eru þrjú og skiptast í sumarleigu, haustleigu og vorleigu. Á sumartímabilinu er orlofshúsum úthlutað og er úthlutunin byggð á fjölda orlofspunkta.

Á vor- og haustleigutímabilunum er opnað fyrir útleigu á ákveðnum auglýstum tímum og gildir þá reglan "fyrstur bókar fyrstur fær".   

Sumarleiga: er frá og með fyrsta föstudegi í maí til og með annars föstudags í september.

Haustleiga: er frá og með öðrum föstudegi í september til og með fyrsta föstudags í janúar.

Vorleiga: er frá og með fyrsta föstudags í janúar til og með fyrsta föstudags í maí.

Leiga á úthlutunartímabili - sumar

Úthlutunartímabilið "Sumar" er frá og með fyrsta föstudegi maí mánaðar ár hvert  til og með annars föstudags september mánaðar ár hvert. Skiptidagar eru föstudagar. Eingöngu er hægt að leigja viku í senn í sumarleigu.

Opnað er fyrir umsóknir um orlofsdvöl á úthlutunartímabili "Sumar" þriðja miðvikudag í mars á ári hverju. Sótt er um rafrænt á orlofsvefnum https://orlof.is/slfi/.

Hægt er að setja inn allt að 10 valmöguleika í umsókn. Sem fyrsta val er sett það sem helst er óskað eftir, síðan annað val ef það fyrsta myndi ekki ganga eftir o.s.frv. Bent er á að því fleiri kostir sem valdir eru þeim mun meiri möguleikar eru á úthlutun. Þá er bent á að hægt er að sækja um sama orlofshúsið á ólíkum tímabilum eða önnur orlofshús á sama tímabili. Þegar valkostirnir hafa verið settir inn er smellt á SENDA.

Eftir að úthlutun  er lokið opnar fyrir þá sem sóttu um en fengu ekki úthlutað og geta þeir sótt um það sem ekki fór út eða hefur verið skilað inn. Að því tímabili loknu opnar fyrir þá sem ekki sóttu um þar sem hægt er að sækja um það sem eftir stendur. Þá gildir reglan fyrstur bókar fyrstur fær.

Punktafrádráttur

Leiga á orlofshúsi kostar mismunandi marga orlofspunkta eftir tímabilum. Vorleiga (maímánuður) kostar vikuleiga 12 punkta, leiga fyrri og síðari hluta sumars kostar vikuleiga 24 punkta (júní og ágúst eftir verslunarmannahelgi og byrjun september), hásumar kostar vikuleiga 36 punkta, og vikuleiga um jól og páska kosta 24 punkta. Við afpöntun á orlofshúsi bakfærist punktafrádrátturinn sjálfkrafa.

Leiga utan úthlutunartímabila

Á vor- og haustleigutímabilunum er opnað fyrir útleigu á ákveðnum auglýstum tímum og gildir þá reglan fyrstur bókar fyrstur fær. Auglýsingar um opnun eru birtar á miðlum félagsins.  Félagsmenn geta eingöngu leigt eina viku samtals (7 nætur) á hverju leigutímabili. Þannig er hægt að leigja oftar en einu sinni en hámark gistinátta eru 7.

Breytingar og afpantanir

Félagsmaður getur afpantað bókun sína með því að senda tölvupóst á slfi@slfi.is Beiðnir um endurgreiðslu eru afgreiddar í samræmi við eftirfarandi reglur Orlofsheimilasjóðs:

Sumarleiga

Félagsmaður getur afpantað orlofshús gegn fullri endurgreiðslu allt að 2 vikum áður en leigutími hefst. Ef afpantað er með  minna en tveggja vikna fyrirvara að sumri fæst ekki endurgreiðsla nema orlofshúsið leigist aftur og þá einungis það sem fæst fyrir það.

Vor og haustleiga

Félagsmaður getur afpantað orlofshús gegn fullri endurgreiðslu allt að 1 viku áður en leigutími hefst. Ef afpantað er með minna en viku fyrirvara fæst ekki endurgreiðsla nema orlofshúsið leigist aftur og þá einungis það sem fæst fyrir það. Leigugjald er ekki endurgreitt þótt félagsfólk geti ekki nýtt sér dvöl að fullu vegna veðurs eða ófærðar en félagsmenn eiga rétt á því að færa bókun á aðra daga.

Kaupmannahöfn

Félagsmaður getur ekki fengið endurgreidda leigu hætti hann við, nema að tímabilið endurleigist. Eingöngu er hægt að leigja samtals sjö nætur í íbúðinni í Kaupmannahöfn ár hvert.

Breytingar á bókun

Félagsmaður getur breytt hverri bókun í eitt skipti. Ekki er heimilt að færa bókaða leigu yfir á leigutímabil sem ekki hefur verið opnað fyrir.

Greiðslufyrirkomulag

Greiða ber með kreditkorti eða debetkorti fyrir bókaða dvöl á orlofsvef sjóðsins.

Þrif

Félagsmenn þurfa að koma með (lín) þ.e. lak, sængur- og koddaver og handklæði.  Sömuleiðis þarf að hafa meðferðis viskastykki, borðklúta/þrifaklúta, uppþvottalög, sápu, klósettpappír og plastpoka. Bent er á að hægt er að leigja lín þ.e. lak, sængur- og koddaver á skrifstofu félagsins vegna orlofsíbúða í Reykjavík.

Skildu við orlofshúsið eins og þú vilt koma að því. Þrífa skal vel eftir dvöl og fylgja leiðbeiningum sem eru í húsinu. Við brottför skal tæma og þrífa heita pottinn, grill skal þrífa vel og ef gaskútur tæmist er viðkomandi beðinn að fara með hann til áfyllingar, taka greiðslukvittun og senda kvittun og reikningsupplýsingar á slfi@slfi.is til greiðslu. Í lok dvalar skal allt sorp fjarlægt. "Refsiþrifagjald" að upphæð 15.000 kr. getur verið innheimt ef vankantar eru á þrifum.

Lyklabox

Númer á lyklaboxi stendur á leigusamningi. Leigusamningar eru ávallt aðgengilegir á orlofsvefnum en til þess að nálgast samning þarf að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Þá er kvittun og leigusamningur ávallt sendur með tölvupósti á netfang félagsmans þegar gengið er frá greiðslu.

Framsal

Félagsmanni er óheimilt að framselja öðrum leigurétt eða leyfa öðrum óviðkomandi að leigja eða dvelja í sínu nafni.  Leigutaki  ber ábyrgð á orlofshúsinu og innanstokksmunum meðan á dvöl stendur.

Gæludýr

Óheimilt er að hafa gæludýr með í bústaði í eigu félagsins nema sérstaklega komi fram í leigusamningi að það sé heimilt og þá sé öllum almennum reglum um gæludýr fylgt.  

Persónuvernd

Orlofsheimilasjóður heitir félagsmönnum sínum fullum trúnaði um allar þær persónuupplýsingar sem gefnar eru upp í tengslum við aðild sína að sjóðnum. Sendingar úr orlofskerfi kunna að nota persónuupplýsingar, s.s. búsetu, netfang eða símanúmer til að útbúa viðeigandi skilaboð. Persónuupplýsingar frá félagsmanni verða ekki afhentar þriðja aðila. Félagsmenn geta afskráð sig og þannig neitað Orlofsheimilasjóði um notkun á persónuupplýsingum

Birting

Verklagsreglur þessar skulu birtar á vef Orlofsheimilasjóðs Sjúkraliðafélags Íslands.