Íbúðin í Los Arenales de Sol er á efstu hæð (5.hæð) í fjölbýlishúsi við ströndina með frábæru útsýni. Íbúðin er á einni hæð og er 100  fm sem skiptist í  þrjú svefnherbergi, tvö baðherbergi auk stofu sem er með svefnsófa fyrir 2. Stofa og eldhús eru í einu rými. Gott aðgengi er fyrir fatlaða og er lyfta frá bílastæði í kjallara upp á efstu hæð. Svalir eru eftir endilangri íbúð (með útihúsgögnum) og svo eru líka svalir frá svefnherbergjum.  Íbúðinni fylgja einkaþaksvalir sem eru 80 fm þar eru 4 sólarbekkir, borð, stólar og innrétting með vaski og ísskáp. Til þess komast þangað er farið með lyftu úr sameigninni við hliðina á íbúðinni. Bílastæði eru í kjallara og merkt Sameyki og númer 11. það eru fleiri en ein lyfta í húsinu og til þess að komast upp í íbúð þá er nauðsynlegt að nota lyftuna sem er næst innkeyrsludyrunum svo fólk lendi á réttum stað í húsinu. Rétt er að vekja athygli á því að íbúðin er nr. 48 en bjallan niður við gönguhliðið við innkeyrsluhliðið er merkt 01048 en dyrabjalla við anddyrið er merkt 048.   

 
Allur nauðsynlegur borðbúnaður er í íbúðinni, eldhústæki, hárþurrkur, þvottavél og sjónvarp, allur rúmfatnaður sem þarf,  handklæði, tuskur og viskastykki fylgja. Gistimöguleikar eru fyrir allt að 8 manns, + 1 smábarn þ.e. þrjú hjónaherbergi með rúmum sem eru 150x190, svefnsófi í stofu 140x190 cm og eitt barnaferðarúm. Allur búnaður er miðaður við hámarksfjölda gesta.


Þrif í lok dvalar eru innifalin í leiguverði en nánari upplýsingar um frágang og húsreglur má finna í íbúðinni og í bæklingi. Gestir hafa fullan aðgang að sameiginlegu útisvæði og sundlaug en við bendum á að sýna öðrum gestum tillitssemi. Garðurinn er lokaður og er með sundlaug, tennisvelli og allskyns aðstöðu til leikja og líkamsræktar fyrir börn og fullorðna.


Hægt er að kaupa aukaþjónustu svo sem innkaup, aukaþrif o.fl. en nauðsynlegt er að panta hana um leið og íbúðin er bókuð.

Kynning á húsinu og staðnum er að finna hér.

Leiga á húsum á Spáni fæst ekki endurgreidd hætti fólk við.