Gautshamar í Þernuvík er stórglæsilegt sumarhús sem er útbúið öllum helstu þægindum.  Á aðalhæð hússins er gott eldhús með uppþvottavél og gott aðalrými með stofu, borðstofu og setkrók.  Þar er baðherbergi með sturtu og tvö svefnherbergi með hjónarúmum þar sem fjórir geta sofið.  Á efri hæðinni er stórt svefnherbergi með tveimur tvíbreiðum rúmum, auk þess sem á skörinni er svefnsófi, svo uppi geta sofið allt að sex manns.  Úti er grill og stórt borð og stólar, svo snæða má þar þegar veðursældin í Djúpinu leikur við gestina, en veðurfar þar er almennt gott.  Einhver minnsta úrkoma á landinu og langur sólargangur.  Það er stór lóð, þar sem má finna litla tjörn og bú, þar sem yngri kynslóðin getur dundað sér.

 

Það eru tvö svipuð hús í Þernuvíkinni húsið okkar er vinstra megin þegar keyrt er að húsunum

 

Sumarkvöld í Þernuvík er töfrum líkast.  Þegar best lætur rúllar sólin sér hægt og rólega niður norðvesturhlíðina þar til hún sekkur í sæ.  Það er yndislegt að sitja framan við hús og njóta þessa sjónarspils við fagran undirleik fuglanna í víkinni og þá sérstaklega æðarfuglsins sem virðist af hljóðunum að dæma hafa það huggulegra en flestar aðrar fuglategundir.  Ef veðrið er ekki sem best til útiveru er útsýnið innan úr bústaðnum ekkert tilkomuminna.

 

Þernuvík er í miðju Ísafjarðardjúpi, sem er einn stærsti fjörður landsins.  Úr honum ganga fjölmargir firðir og víkur, eða níu firðir að sunnanverðu, auk Jökulfjarða sem finna má handan Djúpsins.  Úr Þernuvík má nýta sér fjölmarga kosti til dagsferða og styttri ferða.  Stutt er í jarðhitasvæði og því talsvert um heitar náttúrulaugar innan seilingar.  Á göngukorti sem útbúið hefur verið fyrir Íafjarðardjúp má finna nokkrar gönguleiðir í nágrenni Þernuvíkur, flestar eru gamlar alfaraleiðir og eru þær yfirleitt ekki merktar að öðru leiti en á kortinu.  Djúpið er úrvalsstaður til að njóta fagurs útsýnis á sama tíma og hægt er að marinera sig í heitum laugum og er innan við tuttugu kílómetra akstur í þrjár slíkar:  Reykjanes, Heydal og Hörgshlíð.  Hér á eftir má lesa um áhugaverða staði í nágrenni Þernuvíkur, en svo er líka alltaf voða huggulegt að sitja heima, rölta jafnvel aðeins í fjöruna eða upp hjallana í víkinni.

 

Skammt frá Þernuvík er Ögur.  Gamalt höfuðból og sögufrægur staður þar sem sýslumaðurinn Ari nokkur í Ögri gerði talsverðan óskunda snemma á 17. öld, helst þá í Spánverjavígunum.  Í Ögri er nú starfrækt ferðaþjónusta yfir sumarmánuðina og kaffihús í gamla samkomuhúsinu, þar sem árlega er haldið hið rómaða Ögurball.  Þar má fara í bæði kajak- og gönguferðir með leiðsögu.  Næsti fjörður norðan Þernuvíkur er Skötufjörður, þar meðal annars er að finna eitt stærsta sellátur á Vestfjörðum við Hvítanes og á sama stað er að finna Litlabæ.  Þar er fullkomið að fá ssér ekta íslenskar vöfflur og heitt súkkulaði í húsinu sem sannarlega ber nafn með rentu.  Á leiðinni í Litlabæ er kjörið að stoppa rétt norðan fjarðarbotnsins, þar sem finna má eitt vinsælasta myndastopp heimafólks á Vestfjörðum, Steininn.

 

Næsti bær norður úr er súðavík, sem má kannski kalla höfuðborg Þernuvíkur, þar sem hún hefur heyrt undir Súðavíkurhrepp síðan 1995.  Í Súðavík er fjölskyldugarður Vestfjarða, Raggagarður, sem er útbúinn fjölmörgum skemmtilegum leiktækjum fyrir börn á öllum aldri.  Þar má finna Melrakkasetur Íslands í gamla Eyrardalsbænum.  Þar er hægt að fræðast uum heimskautarefinn, fyrsta landnemann á Íslandi, auk þess sem hægt er að fá sér kaffiveitingar.  Þegar þarna er komið hefur landslag fjarðanna breyst allverulega frá mjúkri ásýndinni í Þernuvík, há og brött fjöll í sjó fram og undirlendi af skornum skammti.  Þegar ekið er yfir í næsta fjörð má sjá talsvert stóra eyri sem skagar út í fjörðinn og þar er höfuðstaður Vestfjarða Ísafjörður.  Á sumrin hreinlega iðar Ísafjörður af lífi og mikið um afþreyingu sem gestir geta nýtt sér.  Þá er stutt að fara frá Ísafirði yfir í smærri kjarna Ísafjarðarbæjar:  Suðureyri, Flateyri og Þingeyri.  Bolungarvík er yrst í Djúpinu og er tvennt sem helst er vert að minnast á þar:  sundlaugin sem er með rennibraut og mjög vinsæl af heimafólki og Bolafjall.  Hægt er að keyra alla leið upp á fjallið í 638m. hæð yfir sjávarmáli.  Útsýnið þaðan er ekkert minna en stórkostlegt og sérlega tilkomumikið að sjá sólsetrið ofan af fjallinu.  

 

Nú byrjum við aftur með Þernuvík sem upphafspunkt.  Sé haldið í suðurátt eru heitu-lauga-paradísin innan seilingar.  Þá má fyrst nefna ævintýradalinn Heydal í Mjóafirði.  Þar hafa gestgjafarnir Stella og Gísli útbúið heita laug í gömlu útihúsi þar sem nú vaxa ávaxtatré af ýmsum gerðum og óhætt að segja að stemmingin þar inni sé ögn súrrealísk fyrir íslenskar aðstæður.  Það eru líka flottir pottar utan við húsið.  Heilmikið upplifelsi er að labba yfir ánna og fara í Galtarhryggslaug handan hennar.  Sagan segir að vatnið í þeirri náttúrulaug hafi heilunarmátt, enda vatnið vígt af Guðmundi góða.  Í gömlu hlöðunni er starfræktur veitingastaður þar sem mikil áhersla er lögð á að vera með mat úr eigin framleiðslu, ekki slær það á gleði yngstu gestanna að hitta talandi páfagaukinn Kobba.  Í Heydal eru fallegar gönguleiðir og þaðan er hægt að fara í hestaferðir og kajakferðir.  Einnig má þar renna fyrir bleikju í Austurvatni.

 

Hörgshlíð handan stóru brúarinnar ef ekið er 10 km inn fjörðinn.  Þar má finna sennilega minnstu sundlaug landsins.  Hún hvílir við sjávarsíðuna og er útsýnið óviðjafnanlegt.  Laugin er í eigu landeigenda í Hörgshlíð sem leyfa gestum að nota hana, en vilja eðlilega sjá góða umgengni á móti.  Úr minnstu laug landsins er síðan hægt að fara í stærsta heita pott landsins, en sundlaugin í Reykjanesi er gjarnan kölluð það.  Sundlaugin er með þeim stærri á Vestfjörðum og var byggð við héraðsskólann sem var starfræktur þar fram til 1991.  Nú er hótel í gamla skólanum.  Í Reykjanesi er að finna saltframleiðsluna Saltverk sem býður upp á leiðsögn um vinnsluna þar sem salt er framleitt með jarðvarma.  Einnig má nefna að á milli Þernuvíkur og Reykjaness er Vatnsfjörður.  Á árunum 2003-2013 stóð Fornleifastofnun Íslands fyrir rannsóknum í Vatnsfirði.  Jörðin er landnámsjörð og seinna kirkjustaður.  Við uppgröftin kom í ljós skáli, smiðja og fleiri smáhýsi frá víkingatímanum og í bæjarhólnum fundust leifar bygginga frá 17-19 aldar og undir þeim eru eldri mannvistarleifar sem bíða frekari rannsókna.  Skilti eru á staðnum þar sem lesa má frekar um þennan fornleifafund.

 

Lengra suður má halda í Ísafjörð stærsta fjörðinn í Djúpinu.  Það er ýmislegt hægt að skoða ef tekinn er afleggjari til vinstri í stað þess að halda á Steingrímsfjarðarheiðina.  Steinshús er að finna í gamla samkomuhúsinu á Nautseyri.  Þar er safn, veitingastofa og fræðimannaíbúð.  Allt er þetta til heiðurs einu af höfuðskáldum íslenskrar ljóðlistar.  Í safnhlutanum er innréttað herbergi með munum sem minna á sögu Steins og sögusýning með endurgerðum handritum og bókum.  Einnig má þar hlýða á upplestur skáldsins og tónlist við ljóð hans.

 

Ef haldið er lengra út fjörðinn má finna stað sem af mörgum er talinn einn sá fegursti á Vestfjörðum, Kaldalón.  Þar bjó áður tónskáldið og héraðslæknirinn Sigvaldi Kaldalóns sem eimmitt tók nafn sitt af þessum töfrastað, hvar jökultunga úr Drangajökli teygir sig fram fjörðinn og áin Mórilla berst af þunga í sjó út.  Drangajökull er eini jökullinn á Vestfjörðum.  Hann er sá fimmti stærsti á landinu og sá jökull sem hopar hægast.  Göngugarpar geta lagt upp í ævintýraferðir frá Kaldalóni, því þaðan liggja gönguleiðir til Jökulfjarða og yfir Drangajökul til Hornstranda.  Það er þó ástæða til að taka fram að aldrei ætti að leggja á jökulinn nema vel upplýstur og vel búinn.  Sé enn haldið lengra út fjörðinn má finna Dalbæ á Snæfjallaströnd.  Þar er rekin ferðaþjónusta yfir sumarmánuðina sem og Snjáfjallasetur þar sem finna má sögusýningu um búsetu á ströndinni fyrr á tímum.

 

Það er ekki mikið mál að fara í dagsferð yfir á Strandir úr Þernuvík.  Þá er haldið yfir Steingrímsfjarðarheiðina og rétt handan hennar eru bæði Hólmavík og Drangsnes.  Á Hólmavík er Galdrasafnið og er það með vinsælli söfnum á Vestfjörðum.  Þar er hægt að fræðast um allra handa hluti tengda göldrum, eins og tilbera og nábrækur.  Það er engin tilviljun að safnið er á Ströndum, því lengi hefur loðað við Strandamenn að vera fjölkunnugir mjög og galdraofsóknir hvergi meiri á Brennuöld en þar.  Á Hólmavík er líka góð sundlaug og á Drangsnesi frábæriri heitir pottar í fjöruborðinu.

 

Fjarlægðir:

Þernuvík-Ögur 11 km

Þernuvík  - Heydalur 19 km

Þernuvík - Reykjanes 19 km

Þernuvík - Hörgshlíð 19 km

Þernuvík - Hólmavík 106 km

Þernuvík - Drangsnes 118 km

Þernuvík - Nauteyri 65 km

Þernuvík - Kaldalón 85 km

Þernuvík - Litlibær 44 km

Þernuvík - Súðavík 96 km

Þernuvík - Ísafjörður 116 km

 

Viðbótarupplýsingar um nokkra staði

Ögur:

Ferðaþjónustan Ögur Travel er rekin af Halldórsbörnum sem ólust þar upp.  Þau koma á æskuslóðirnar yfir sumarmánuðina til að þjónusta ferðafólk í Djúpinu og bjóða upp á skipulagðar upplifunarferðir, bæði kajak- og gönguferðir.  Þar er sga svæðisins sögði í gegnum staðhætti og náttúru; sagt frá Fóstbræðrasögu, Spánverjavígunum og byggðasögunni.    Hægt er að velja úr kengri og styttri ferðum eftir áhuga og getu hópa.  Í nokkur ár hefur nú verið rekið veitinga/kaffihús í samkomuhúsinu í Ögri.  Sagan drýpur af hverju strái og var þar á öldum áður verstöð með talsverðri byggð í Ögurnesinu.  Þegar litið er til fortíðar er Ögur fyrr á öldum sá suðupottur í Djúpinu sem Ísafjörður seinna meir.  Þar bjó hvert mikilmennið á fætur öðru, eins og Björn Guðnason og Magnús (prúði) Jónsson á 16. öld, sonur Magnúsar, Ari Magnússon settist svo í bú föður síns fram á 17. öld.  Séra Arngrímur Jónsson tók við prestakallinu í Ögri undir lok 17. aldar og þar bjuggu á 18. öld gáfumennin Björn Markússon og Erlendur Ólafsson.  Á 19. öld var ennstórhugur í Ögurfólki er Jakob Rósinkarsson reisti þar stærsta íbúðarhús sem reist hafði verið í sveit á Íslandi (1885).  Húsið er mikil prýði og stendur það enn í víkinni ofan við kirkjuna.  Kirkjan er enn eldri og sú sem nú stendur orðin 160 ára gömul, en kirkja hefur verið í Ögri nær allar götur frá kristnitöku.  Kirkja á margt fallegra og verðmætra muna, sem flestir eru komnir á Þjóðminjasafnið. 

Í Ögurvíkinni er einnig bærinn Garðsstaðir.  Þar er að finna einn stærsta bílakirkjugarð sem sögur fara af hér á landi.  Sitt sýnist hverjum um þennan gjörning, en það er óneitanlega áhugaverð sýn að sjá hundruð bíla af öllum stærðum og gerðum í þéttri kös þar sem enginn býst við slíku.

www.ogurtravel.com

 

Litlibær/Hvítanes:

Það er einstaklega að sækja Litlabæ heim og renn gómsætar veitingarnar ljúflega niður í fallegu umhverfinu.  Þó bændurnir í Hvítanesi Sigríður og Kristján séu að reyna að slíta sig frá rekstri kaffihússins og koma honum í hendur næstu kynslóðar, getur það verið hægara sagt en gert og þau mjög gjarnan á staðnum.  Þau eru miklir höfðingjar að heimsækja.  Kristján heefur alla sína tíð búið í Hvítanesi og var hann síðasta barnið sem fæddist á Litlabæ, þar sem hann ólst upp.  Bærinn er frá síðla 19. aldar og var búið á honum fram til ársins 1969.  Upphaflega voru það tvær vinafjölskyldur sem byggðu bæinn, sem er einungis 28 fm að grunnfleti með lofti.  Þótt húsið sé ekki stórt bjuggu þar þegar mest var rúmlega 20 manns.  Eftir að hætt var að búa á bænum fór hann fljótt í niðurníslu.  Kristján og Sigríður komu þó munum til geymslu og afhentu síðan býlið Þjóðminjasafni Íslands sem fór í miklar endurbætur á því.  Sérlega fallegar steinhleðslur er að finna við Litlabæ og er túnið utan við bæinn afmarkað með þeim.  Þá er mun eldri hlaðin hringlaga fjárborg niður undir sjávarmáli sem getgátur eru uppi um að sé byrgi frá tímum Papanna á Íslandi.

Litlibær er opinn frfá því snemmsumars og fram á haust.  Hægt er að finna hanna á Facebook.

 

Slátrið í Hvítanesi:

Selir eru svo skemmtilegar skeonur.  Þessi villtu spendýr virðast stundum alveg jafn forvitin um mennina sem skoða þau og þeir um þau.  Á Vestfjörðum er mest af landssel á Íslandi og er sellátrið í Hvítanesi stærst.  Þar má á góðum degi sjá tugi sela breiða úr sér á klöppum og skerjum úti fyrir ströndinni.  Búið er að koma upp aðstöðu til selaskoðunar, með bílastæðum, salernum og göngustígum.

 

Heydalur:

Talsvert hefur þegar verið fjallað um Heydal hér að ofan og er óhætt að segja að heimsókn þangað geti verið hið skemmtilegasta ævintýri fyrir alla fjölskylduna.  Í rúm 20 ár hefur Stella í Heydal ásamt sonum sínum verið að byggja upp þá ferðaþjónustu sem þar er að finna.  Í Heydal er mikil náttúrufegurð og er dalurinn veðursæll og mjög gróinn.  Maturinn þar er mikið lostæti og kemur að langstærstum hluta úr héraði.  Veitingastaðurinn er opinn alla daga vikunnar í hádeginu og kvöldin.  Í Heydal eru útileiktæki og heitir pottar og kostur á heilmiklu fjöri.  Margar gönguleiðir eru í dalnum og fjölmargar fuglategundir er þar að finna.  Til að auka á bæði upplifun yngstu fuglaskoðaranna og bæta við þekkinguna er hægt að fá gátlista á veitingastaðnum þar sem má merkja við þá fugla sem sjást.  Á heimasíðunni má einnig finna upplýsingar um kajakferðir sem þau bjóða upp á í Mjóafirði og um ólíkar tegundir reiðtúra sem hægt er að fara í.  Opið er í Heydal árið um kring.  Heimasíða þeirra er www.heydalur.is einnig eru þau á Facebook.

 

Reykjanes:

Í Reykjanesi er rekin ferðaþjónusta árið um kring og hefur hún verið vinsæll ættarmótarstaður þar sem aðstaðan í gömlum skólabyggingum héraðsskólans er vel til þess tallin að hýsa stórfjölskyldur sem vilja efla tengslin.  Þar er veitingasala og bensínafgreiðsla.  Langmesta aðdráttaraflið er samt óhætt að segja að sé sundlaugin stóra, sem er heilir 50 m að lengd og er gjarnan kölluð stærsti heiti pottur á Íslandi.  Löng saga er um sundiðkun á Reykjanesi og var fyrst sundlaugin þar byggð árið 1889 og má sjá hluta hennar enn uppistandandi á nesinu.  Ekki var skráð búseta í Reykjanesi fyrr en héraðsskólinn tók þar til starfa snemma á 20. öld, en hafði nesið þó verið nýtt til ýmissa hluta, eins og saltvinnslu á seinni hluta 18. aldar.

Hótel Reykjanes er á www.rnes.is og á Facebook.

Reykjanesið er eitt stærsta hverasvæðið á Vestfjörðum og er landið á náttúruminjaskrá vegna sérkennilegra sjávarrofsmyndanna, sérstæðs gróðurfars og fjölskrúðugs fuglalífs.

Saltverk hefur framleitt kristalsjávarsalt í Reykjanesi frá árinu 2012 og er það orðið þekkt langt út fyrir landssteinana.  Það þykir úrvalsgott hráefni í matreiðslu og til matvælagerðar og hafa saltbændur verið duglegir í vöruþróun..  Aðferðin við saltverkunina er gamalkunn og er svipuð þeirri sem stundup var á tímim dönsku konungsverslunarinna.  Sælkerasaltið er sjálfbær, umhverfisvæn framleiðsla sem unnin er úr hreinum sjó og útskýrir það eflaust vinsældir þess.  Hægt er að heimsækja vinnsluna.  Heimasíða www.saltverk.com og Facebooksíða Saltverk.

 

Súðavík:

Fyrst er vert að nefna Valagil sem er stórskorið og ægifagurt gil í botni Álftafjarðar.  Þar er kominn göngustígur að gilinu til að gera þessa leið færa fyrir göngufólk.  Súðavík er lítið þorp þar sem finna má verslun og bensínstöð.  Helsta aðdráttaraafl ferðafólks er Melrakkasetrið og svo fjölskyldugarðurinn RAggagarður sem Vilborg Arnarsdóttir hefur byggt upp að mikilli þrautseigju og myndarskap, en garðurinn er til minningar um son hennar Ragnar Vestfjörð, sem lést aðeins 17 ára gamall.  Vill bogga með garðinum stuðla að innihaldsríkum samverustundum fjölskyldna við leik.  Heimasíða Melrakkasetursins er www.melrakki.is og það má einnig finna á Facebook.  Heimasíða Raggagarðs er www.raggagardur.com og hann er einnig á Facebook.

 

Ísafjörður:

Ísafjörður er höfuðstaður Vestfjarða.  Þar er ótalmargt að finna fyrir ferðalanga.  Má þar fyrstnefna allra handa afþreyingu.  Boðið er upp á bátsferðir af ýmsum toga:  útsýnisferð um Djúpið, ferðir í friðlandið á Hornströndum og í Vigur, slöngubátsferðir um Djúpið og kajakferðir.  Þá er boðið upp á gönguferðir með leiðsögn, auk þess sem hægt er að finna fjölmargar gönguleiðir á útivistarkorti sem gert hefur verið af Skutulsfirði.  Vinsælast meðalfjölskyldna hefur verið að fara upp í skessusætið eða Naustahvilft í Kirkjubólshlíð ofan við flugvöllinn, þaðan sem við blasir einstakt útsýni yfir Ísafjörð.  Það er skemmtilegt að rölta um gamlabæinn á eyrinni sem býður upp á skemmtilega húsaskoðun.  Segja má að hægt sé að skoða byggingasögu Íslands á litlum bletti, allt frá gömlu timburhúsunum í Neðstakaupsstað sem er elsta samansafn húsa á Íslandi frá miðri 18. öld yfir í nútíma fjölbýlishús sem er nýrisið við Miðkaupsstað og allt þar á milli:  Norskkatalóghús, íslensk bárujárnsklædd timburhús, fyrsta steinsteypuhúsið og nútíma-arkitektúr.

Eyri í Skulsfirði er landnámsjörð, en ekki eru ýkja miklar fréttir af högum fólks í firðinum þar til saga Ísafjarðar sem verslunarstaður hefst fyrir alvöru snemma á 18. öld.  Eftir að einokunarverslun var aflétt árið 1788 tóku kaupmenn að versla á fleiri stöðum í bænum og má sjá eitt hús frá þeim tíma í Hæstakaupstað þar sem norskir kaupmenn komu á fót sinni verslun - sem fjærst þeirri dönsku í Neðsta.  síðan byggðist einnig upp verslun í Miðkaupstað og var hún mjög fyrirferðamikil hjá Ásgeirsverslun sem þar var á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu.  Almenn íbúðarbyggð hófst ekki að ráði á Ísafirði fyrr en á síðari hluta 19. aldar og standa sum þeirra húsa enn í gamla bænum.  Hófst þá mikið uppgangsskeið á Ísafirði sem má segja að hafi staðið nokkuð bratt fram undir seinni hluta 20. aldar, með hæðum og lægðum.  Með breytingum á samfélagsgerðinni, eins og kvótakerfinu og aukinni menntun, má segja að Ísafjörður hafi hafið vissan lífr´ður og um áratugaskeið birtust upplýsingar um fólksfækkun þar á hverju ári.  Nú hefur vörn verið snúið í sókn og hefur lítilsháttar fólksfjölgun mælst hin síðustu ár.  Væntingar og vonir íbúa hafa ekki látið á sérstanda við það og hefur fasteignaverð hækkað og margs konar þjónusta aukist.  Í því samhengi er vert að nefna að nýjasta fjölbýlishúsið reis á Eyrinni árið 2019, það  fyrsta í 15 ár. 

Allra handa veitingar er hægt að næla sér í ÁÍsafirði.  Þar er einn frægasti fiskveitingastaður landsins í gömlu húsunum í Neskaupsstað, Tjöruhúsið.  Þá er hægt að fá sér danskt bakkelsi í Gamla bakaíinu, þar sem sama fjölskyldan hefur bakað ofan í bæjarbúa og gesti allt frá árinu 1871 og er það elsta starfandi fyrirtæki á Vestfjörðum.  Það má nefna tvennt sem bakaríið er helst frægt fyrir og það eru mjúku kringlunnar og Napóleonskökurnar, sem hægt er að skottast með út á Silfurtorg eða í Blómagarðinn í Hæstakaupstað á góðum dögum.  Þá er hægt að fá sér súrdeigsbrauð, gott kaffi og grænmetisrétt dagsins á kaffihúsinu Heimabyggð.  Veitingastaður er á Hótel Ísafirði þar sem lókal hráefni er í fyrirrúmi og veitingastaðurinn Húsið blasir við fólki þegar rennt er inn í bæinn og er vinsælt að sitja þar fyrir utan á sumardögum, þar er jafnframt öldurhús með lifandi tónlist allar helgar.  Pizzur má fá á Mömmu Nínu og á Hamraborg er hæt að fá pizzur, samlokur og allra handa skyndibita, auk þess sem þar er ísbúð bæjarins.  Hamraborg er víðfræg fyrir skemmtilegt úrval verslunarvarnings þar sem hægt er að fá sér pulsu, bleyjur og gítar í sömu ferðinni.  Þá er Bakarinn með kaffihús við Hafnarstrætið og í þneista þar sem Nettó er að finna, er tælenskur veitingastaður.  Bónusverslun er í botni fjarðarins.

Að öðru skemmtilegu er að gera á Ísafirði má nefna heimsókn í safnahúsið sem er í Gamla sjúkrahúsinu á Eyrartúni.  Byggingin er sennilega sú fallegasta sem finnst á Ísafirði og er hún gerð eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar.  Þar var rekið sjúkrahús fram til 1989.  Þar fyrir utan er ærslabelgur, þar sem stórir sem smáir geta hoppað í sig kæti.  Rétt þar við er Ísafjarðarkirkja.  Nútíma kirkjubygging frá miðjum tíunda áratugnum, þar má finna einafallegustu altaristöflu landsins, Fugla himinins.  Heiðurinn af henni á myndlistarkonan Ólöf Nordal en hún er samansett úr fjölmörgum leirfuglum sem bæjarbúar gerðu.  Í eldborgarhúsinu í Miðkaupstað er Upplýsingamiðstöð ferðamála og þar er einnig ferðaskrifstofan Vesturferðir, svo séu þið í leit af afþreyingu ættuð þið að geta fengið allar upplýsingar þar.

Gagnlegar síður:

www. isafjordur.is

www.vestfjords.is

www.vesturferdir.is

 

Hátíðir á svæðinu yfir sumartímann:

Gönguhátíð á Súðavík, Hlaupahátíð á Vestfjörðum, Act Alone, Mýrarboltinn, Náttúrubarnahátíð á Ströndum, Sandkastalakeppni í Holti, Markaðshelgin í bolungarvík, Furðuleikar á Ströndum, Ögurball, Dýrafjarðardagar.