Glæsilegt 83 fermetra orlofshús sem er tekið í notkun í október 2023. Vel útbúið hús með helstu þægindum, stórum palli og heitum potti.
Svefnherbergin eru þrjú. Í tveimur herbergjum er 2x80 cm rúm. Í þriðja herberginu er koja á þremur hæðum, neðsta kojan er 120cm og hinar tvær eru 80 cm á breidd.
Borðbúnaður er fyrir 10- 12 manns. Í alrýminu er vel útbúið eldhús/borðstofa og stofa. Það er útigeymsla/þvottahús með þvottavél og þurrkara. Þar er einnig geymt barnaferðarúm ef á þarf að halda.
Auka gaskútur er í útigeymslunni/þvottahúsinu ásamt garðslöngu og áhöldum til að þrífa heita pottinn.
Þegar gasið klárast er náð í annan gaskút í litlu búðinni við upplýsingamiðstöðina, framvísa þarf leigusamningi til að fá nýjan gaskút og kvitta fyrir með nafni og kennitölu leigutaka.
Þráðlaust net er í húsinu. Á leigusamingi er uppgefið lyklaboxnúmer (box við útihurð á bústaðnum) Bakvaktarsími Einingar-Iðju er einnig gefinn upp á leigusamningi (í neyð).
Í myndasafni hússins hér á síðunni, má sjá staðsetningu þess á korti (rauðmerkt leið).
Sumarleigutímabilið (júní, júlí og ágúst) er vikuleiga frá föstudegi til föstudags. (sjá verðskrá og úthlutunarreglur á heimasíðu www.ein.is undir orlofsmál)
Helgarleiga er í boði yfir vetrarleigutímabilið, innifaldar eru 3 nætur; frá fimmtudegi til sunnudags, eða frá föstudegi til mánudags. (sjá verðskrá á heimasíðu www.ein.is undir orlofsmál)
Komutími í hús er eftir kl. 16:00. Brottfarartími úr húsi er eigi síðar en kl. 12:00.
Þrífa þarf bústaðinn vel fyrir brottför. Einnig gasgrillið og heita pottinn, tæma þarf uppþvottavélina, loka gluggum og læsa hurðum og setja óhreinar tuskur/moppur í viðeigandi taupoka og skilja hann eftir í forstofunni.
Munið að slökkva á neyslurofanum fyrir vatnið áður en farið er (rofinn er í forstofunni). ALLT rusl skal fara með, dósir, gler o.þ.h. Það eru ruslagámar og dósa-/glersafnarar við upplýsingamiðstöðina.
MUNUM að ganga vel um bústaðinn og skilja við eins og við viljum koma að honum. Það er okkar allra hagur.
Í Húsafelli er sumarbústaðasvæði, ferðamannaþjónusta og tjaldsvæði. Mjög veðursælt er í Húsafelli, lágvaxinn birkiskógur og skjólgott er í hrauninu.
Í grenndinni er Barnafoss og Hraunfossar, hellarnir Víðgelmir og Surtshellir. Góðar gönguleiðir eru í Húsafellslandi og þaðan er hægt að fara í ferðir um nágrennið, til dæmis að Eiríksjökli eða Langjökli, upp á Arnarvatnsheiði eða suður Kaldadal.
Það er ýmiss konar þjónusta og afþreying á svæðinu. Það er lítil verslun, sundlaug, hótel, náttúrulaugar (Krauma og Giljaböðin), golfvöllur, ýmsar hjóla- og gönguleiðir, hraunhella- jökla- og hestaferðir, o.fl.
Sjá nánari upplýsingar á www.husafell.is