Líklega þekkja færri fegurð Vestfjarða af eigin raun en ýmissa annarra svæða á landinu - en fegurðin er ekki minni fyrir þá sök! Vatnsfjörður á Barðaströnd er fullur af sögu og þar er líka fagurt um að litast.

Flókalundur í Vatnsfirði hefur um árabil verið meðal vinsælli sumardvalarstaða landsins. Barðaströndin er á „suðurströnd“ Vestfjarðakjálkans og þar er mjög veðursælt, gróðursælt og skjólgott. Fjölmargir áhugaverðir staðir eru í nágrenninu og má til dæmis nefna Látrabjarg og Rauðasand. Ótal tækifæri eru fyrir þá gesti sem njóta vilja náttúruskoðunar og þarna er líka sagan við hvert fótmál. Talið er að Hrafna-Flóki hafi dvalið í Vatnsfirði þegar hann gaf Íslandi nafn og þá meðal annars gengið upp á Lónfell.

Þá er vert að benda á áhugaverðan valkost sem er að nota Breiðafjarðarferjuna Baldur en hún siglir milli Brjánslækjar í Vatnsfirði og Stykkishólms með viðkomu í Flatey. Þarna eru því margir möguleikar á styttri og lengri ferðum fyrir dvalargesti í orlofshúsum.

Orlofshús Einingar-Iðju í Flókalundi er 40 fermetrar að stærð. 2 svefnherbergi; dýnustærðir; 1x140cm og 1x110cm, 1x130cm og 1x90cm. Svefnpláss fyrir sex manns, sængur og koddar fyrir 6.

Í Flókalundi er sundlaug með heitum pottum. Hún er eingöngu fyrir þá sem að dvelja í orlofsbyggðinni. Hver og einn ber ábyrgð á sér og sínum.

Á Hótel Flókalundi er veitingastaður, N1 stöð og hleðslustöð fyrir rafmagnsbíla.

Talnalás er á húsinu. Upplýsingar eru á leigusamningi.